
Halldór Bjarki Arnarson (1992) lauk framhaldsprófi í hornleik frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Næstu fjögur árin stundaði hann bakkalársnám við tónlistarháskólann í Hannover með horn sem aðalfag undir handleiðslu Markusar Maskuniitty. Haustið 2014 skráði hann sig í tölusettan bassa á sembal hjá Zvi Meniker, prófessor í Hannover, og tók uppfrá því virkan þátt í deild gamallar tónlistar þar. Halldór útskrifaðist frá öðru bakkalársnámi árið 2020, að þessu sinni í semballeik við hinn konunglega tónlistarháskóla í Den Haag. Kennarar hans þar voru Patrick Ayrton og Fabio Bonizzoni.
Halldór hefur fengist við aðrar tónlistarstefnur þar að auki. Hann syngur og leikur á söguleg íslensk hljóðfæri í þjóðlagahljómsveitinni Spilmenn Ríkínís og kemur reglulega fram sem djass- og dægurlagapíanisti svo eitthvað sé nefnt. Halldór hefur fjölmörgum sinnum átt innlegg í sjóð nýrra íslenskra tónverka, til að mynda hlaut hann styrk til að semja hornkonsert 2016 til minningar Emils Thóroddsen.
Halldór spilar reglulega með barrokksveitum á Íslandi og á meginlandinu. Hann er meðal annars meðlimur í íslenska barrokkhópnum sem kenndur er við Symphonia Angelica og hinum margverðlaunaða Amaconsort kvartett frá Þýskalandi. Halldór stundar nú meistaranám í semballeik í Sviss við Schola Cantorum Basiliensis undir leiðsögn Andrea Marcon.